
Grafarholtið
Hverfaskipting í Reykjavík
Reykvikingur.is birti íbúatölur yfir hverfaskiptingu í Reykjavík og verðum við í Grafarholtinu og Úlfarsárdal að sætta okkur við næstsíðasta sætið þegar kemur að fjölda íbúa, ef einhver er í keppni, en aðeins Kjalarnesið telur færri íbúa.
Íbúatölur í Reykjavík við lok september 2024
1. Breiðholt 20.921 íbúar
2. Grafarvogur 17.900
3. Vesturbær 15.889
4. Laugardalur 15.786
5.Háaleiti og Bústaðir 14.244
6. Árbær 10.694
7. Hlíðar 9.788
8. Miðborg 8.421
9.Grafarholt og Úlfarsárdalur 6.033
10.Kjalarnes 823
Samtals 120.499 íbúar
Vissir þú þetta um Hólatorg?
Hólatorg er torg í Grafarholti í Reykjavík, þar sem göturnar Ólafsgeisli, Þúsöld og Kristnibraut mætast. Það er kennt við Hóla í Hjaltadal.
„Hólatorg“ mun vera eina götuheitið í Reykjavík sem er til á tveim stöðum, en samnefnd gata er til í vesturbæ Reykjavíkur. Það byggðist upp úr lokum Fyrri heimsstyrjaldarinnar. Gatan er tvístefnugata, með bílastæðum við norðurhliðina. Skipulagsreiturinn sem Hólatorg tilheyrir er verndað svæði í borgarskipulagi, en ekkert húsanna er verndað í sjálfu sér, en húsin þar eru byggð á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar.
Eru álfar í Grafarholti?
Árið 1971 var verið að leggja nýjan veg norður frá Reykjavík. Vegurinn er hluti af Hringveginum, þjóðvegi nr. 1. Áður hafði verið þarna malarvegur, sem fylgdi landslaginu að mestu, en nú var vegurinn lagður á nútímamáta og steyptur. Því fór meira fyrir honum á þessum stað en áður.
Í vegstæðinu var stór og áberandi klettur, nefndur Grásteinn í örnefnaskrá. Klettinn varð að flytja úr vegstæðinu og í tengslum við þá framkvæmd fóru af stað sögusagnir á vinnustaðnum um að álfar byggju í steininum og að það mundi valda óhöppum ef hann væri hreyfður. Reynt var að grafast fyrir um uppruna þessara sagna en gamalt fólk, sem hafði alist upp í nágrenni steinsins, kannaðist ekki við neinar slíkar frásagnir. Því má fullyrða að álfasagan hafi orðið til á framkvæmdatímanum, hugsanlega hugarsmíð einhvers sem var á móti þessari vegagerð eða sagt í einhverri kerskni. Steinninn var færður og var skilið við hann þar sem hann stendur nú, í tveimur hlutum, sennilega á hvolfi miðað við upphaflega stöðu. Í blaðagrein frá þessum tíma kemur fram að slys hafi orðið sem einhverjir starfsmanna vildu kenna steininum um. Ekki kemur fram hvers konar slys þetta voru og aðrar heimildir fullyrða að að minnsta kosti sum óhöppin hafi orðið áður en steinninn var færður.
Einn atburður frá þessum tíma er þó vel þekktur úr heimildum. Vélamaður, sem tók þátt í að færa steininn, varð fyrir því óhappi að rjúfa vatnsleiðslu að fiskeldisstöð. Af þessu varð mikið fjárhagstjón þegar 90 þúsund laxaseiði drápust úr súrefnisskorti. Þetta hefur að sjálfsögðu verið áfall fyrir manninn og ekki óeðlilegt að hann reyndi síðar að finna ástæðu fyrir þessu óláni sínu. Það mundum við flest hafa gert.
Árið 1999 var verið að leggja tvær nýjar akreinar á þessum vegi og enn var steinninn fyrir við vegargerðina. Álfasagan er rúmlega 50 ára gömul og orðin nokkuð föst í sessi. Fjölmiðlar rifja hana upp annað slagið og leiðsögumenn benda ferðafólki á steininn þegar ekið er út úr borginni. Steinninn hafði með réttu eða röngu verið skilgreindur sem fornleif og merktur sem slíkur. Leyfi fékkst þó til að færa hann um set og í október haustið 1999 var honum komið fyrir á góðum stað skammt frá fyrra stæði.
Hér má einnig sjá rannsóknarskýrslu Þjóðminjasafnsins um Grástein í Grafarholti.
Textinn hér að ofan var fenginn frá Vísindavefnum.
Tapað/Týnt/Fundið/Stolið á Facebook - Vikan 9. - 15. september 2024
1 yfirbreiðsla
1 leikfangabangsi
2 kettir
1 skópar
1 hlaupahjól
Örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess
Á sjöunda áratug síðustu aldar tók sig maður til að nafni, Ari Gíslason, og samdi örnefnaskrá fyrir Grafarholt og nágrenni. Hér má sjá ritsmíð sem hann skilaði af sér varðandi örnefnin. Hér má sjá eitt kort af kortunum sem hafa verið gerð og sýna örnefnin og önnur kort má finna hér
Grafarholt fyrir aldamót
Golfmyndir.is eiga mikið magn mynda, meðal annars af Grafarholtinu áður en byggð hófst. Þær myndir má finna hér
Hver á réttinn?
Ég bý í Grafarholtinu en þarf oft að skjótast í Úlfarsárdalinn þar sem sonur minn æfir og spilar knattspyrnu með Fram. Ég tel mig ágætan í umferðarreglum og umferðarmerkjum. Hægri réttinn er ég einnig með á hreinu en... er ég með hann alveg á hreinu? Jafnvel umferðarlögin? Ég er farinn að efast.
Ég fer alltaf með son minn sömu leið á æfingar og rétt áður en ég kem að Framvellinum keyri ég í gegn þar sem Úlfarsbrautin og Urðarbrunnur mætast. Lengi vel hélt að um hringtorg væri þar að ræða. Lítil hringlaga upphækkun er þar, sem maður hefði haldið að gæfi til kynna að um hringtorg væri að ræða. Þegar ég keyri þarna í gegn hef ég hreinlega séð menn keyra allskonar þarna í gegn. Sumir eins og ég, telja að um hringtorg sé að ræða, en aðrir keyra beint þarna yfir.
Þegar ég fór að skoða þetta betur er ekkert umferðarmerki sem segir að þarna sé hringtorg. Ef þetta er ekki hringtorg, hvers vegna er þessi litla hringlaga upphækkun þarna í miðjunni? Er kannski hægri réttur þarna eftir allt saman eða hver er hreinlega frekastur, svona eins og þegar götur eru þrengdar þar sem gangbrautir eru á sumum stöðum og bara einn bíll getur farið í gegn í einu?
Ég spyr því, hver er reglan þarna? Hver á réttinn?
Garðar Örn skrifar
Sagan - Hver var þessi Guðríður sem Guðríðarkirkja er kennd við?
Guðríðarkirkja í Grafarholti var vígð af biskupi Íslands þann 7. desember 2008. En hvaðan kemur Guðríðarnafnið?
Guðríður Þorbjarnardóttir (f. fyrir 1000 - d. ?) var íslenskur landkönnuður og talin ein víðförlasta kona heims sem uppi var kringum árið 980. Að því er sögur herma sigldi hún átta sinnum yfir úthöf og ferðaðist fótgangandi um þvera Evrópu.
Guðríður var fædd á Íslandi en sigldi til Grænlands og þaðan til Vínlands. Hún eignaðist þar barn, Snorra Þorfinnsson, og er talið að hún sé fyrsta konan af evrópskum uppruna sem fæddi barn í Ameríku.
Frásögn af Guðríði er í Eiríks sögu rauða, en einnig segir af henni í Grænlendinga sögu og ber þeim ekki alltaf vel saman. Guðríður var eftir því sem fyrrnefnda sagan segir dóttir Þorbjarnar, sonar Vífils, leysingja Auðar djúpúðgu, og Hallveigar Einarsdóttur konu hans, Sigmundssonar Ketilssonar landnámsmanns á Laugarbrekku.
Foreldrar Guðríðar bjuggu á Laugarbrekku og þar fæddist hún en þegar hún var ung að aldri flutti fjölskyldan til Grænlands og lenti í miklum hrakningum á leiðinni og dó helmingur förunauta þeirra. Þó komst Þorbjörn á endanum til Grænlands og gaf Eiríkur rauði honum land á Stokkanesi. Í Grænlendinga sögu segir aftur á móti ekkert um ættir Guðríðar en þar er sagt að Leifur heppni hafi bjargað hópi manna, þar á meðal henni og og Þóri austmanni, fyrsta manni hennar, úr skeri og flutt með sér til Brattahlíðar, þar sem Þórir veiktist og dó skömmu síðar.
Guðríður giftist svo Þorsteini Eiríkssyni, syni Eiríks rauða og bróður Leifs heppna. Þorsteinn dó úr farsótt á leiðinni til Vínlands. Þriðji maður Guðríðar var Þorfinnur karlsefni Þórðarson frá Glaumbæ í Skagafirði. Þau sigldu til Vínlands og voru 160 manns í leiðangri þeirra. Þau könnuðu landið og fóru sunnar en aðrir og komu á stað sem þau nefndu Hóp. Líkur eru á því að það hafi verið Manhattan-eyja þar sem New York stendur núna.
Guðríður og Þorfinnur voru í þrjú ár í Ameríku. Á meðan þau dvöldu þar fæddi Guðríður soninn Snorra. Talið er að hann sé fæddur um 1004 og er fyrsti hvíti maðurinn fæddur þar svo að vitað sé. Þau gáfust þó upp á Ameríkudvölinni og fóru þaðan aftur til Grænlands og síðan fljótlega til Noregs. Þar voru þau þó aðeins einn vetur en héldu síðan til Íslands og settust að í Glaumbæ, föðurleifð Þorfinns. Þar eignuðust þau annan son, Þorbjörn eða Björn.
Snorri sonur þeirra tók við búi í Glaumbæ eftir lát föður síns. Þegar Guðríður var orðin ekkja fór hún í suðurgöngu, hugsanlega til Rómar. Þegar hún kom aftur hafði Snorri byggt fyrstu kirkjuna sem reist var í Glaumbæ. Í Grænlendinga sögu segir að Guðríður hafi verið einsetukona og nunna í Glaumbæ síðustu æviárin.
Þann 4. mars 2011 fór Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands til fundar við Benedikt páfa 16. í Vatíkaninu og færði honum afsteypu af styttu Ásmundar Sveinssonar af Guðríði og Snorra syni hennar.
Texti fenginn af Wikipedia
Gamla fréttin - Nóatún fékk leyfi fyrir mistök
Hverfi 113 kann ekki að vera mjög gamalt, en nógu gamalt samt svo að það sé hægt að fara nógu langt aftur í tímann og skoða gamlar fréttir af svæðinu. Grafarholtid.is ætlar að reyna öðru hverju að grafa upp gamlar fréttir og birta hér á vefsíðunni.
Fyrir tæpum 20 árum síðan birtist frétt á Visir.is þess efnis að gamla hverfis-verslunin okkar, Nóatún, hefði fengið að opna verslun sína fyrir mistök við Þjóðhildarstíg. Fréttina um málið má nálgast hér
"Já, en Grafarholtið er svo langt í burtu"
“Já, en Grafarholtið er svo langt í burtu”, heyri ég oft frá fólki þegar ég mæli með hverfi til að búa í. Þetta heyrði ég líka alltaf þegar ég bjó í Grafarvoginum í denn. “Svo langt í burtu”, heyrðist alltaf. Svo langt í burtu frá hverju, spyr ég? Er fólk að miða við miðbæinn? 101 Reykjavík? Hvað er þangað að sækja í dag til dæmis? Kaffihúsin? Er það alger nauðsyn að búa í nálægð við kaffihús? Varla er það verslunin? Hnignandi Laugavegurinn þar sem önnur hver verslun selur minjagripi fyrir ferðamenn og hitt annað hvert húsið er annað hvort gistiheimili eða hótel? Eða erum við öll KR-ingar og það er svo langt að fara í Frostaskjólið úr Grafarholtinu þegar KR er að spila?
Það er yfirleitt fátt um svör þegar ég spyr á móti hverju Grafarholtið sé svona langt frá. Sjálfur er ég búinn að búa í flestum hverfum borgarinnar fyrir utan 101 svæðið og á svæðunum vestan við það. Aldrei hefur mér fundist ég búa svo langt í burtu frá öllu eftir að ég flutti hingað upp á hæðina fyrir 12 árum síðan. Kannski frá ystu byggðum Hafnarfjarðar ef það er eitthvað en þangað á ég yfirleitt aldrei nein erindi. Það er stutt í flest annað sem maður þarf á að halda. Hér er apótek, matvöruverslun og banki til dæmis. Allskonar fyrirtæki eru hér á svæðinu en ef maður þarf að komast á alvöru bensínstöð eða í verslunarmiðstöð, já eða kaffihús, tekur það mann ekki nema nokkrar mínútur að keyra þangað. Ég tala nú ekki um það ef þú ert að æfa og spila golf eða knattspyrnu til dæmis. Hér sjá GR og Fram um sína.
Ég flutti í hverfið árið 2012 og varð strax ástfanginn af hverfinu og vil helst hvergi annarsstaðar búa. Hér er allt svo rólegt og friðsælt. Grafarholtið er eins og Djúpivogur nema það að hér búa töluvert fleiri. Hér upplifi ég mig í hálfgerðum sumarbústaðafíling. Ég verð ekki var við neina umferð við mitt heimili, hvað þá gangandi vegfarendur. Það fer nú kannski eftir staðsetningu hvers og eins sem býr hér í fallega holtinu en ég er mjög sáttur. Ég er líka svo heppinn að vera með góða nágranna. Hér uppi er líka frábært útsýni yfir borgina. Ef ég þarf eitthvað á svæði 101 að halda horfi ég bara yfir borgina í áttina að póstnúmerinu fræga og átta mig á því í leiðinni að ég þarf ekkert á því svæði að halda eftir allt saman. Svo er líka miklu styttra héðan til Ísafjarðar.
Garðar Örn skrifar
Sagan - Hver var þessi Ingunn sem Ingunnarskóli er kenndur við?
Ingunnarskóli í Grafarholtinu var formlega opnaður í desember byrjun árið 2005. Skólinn, sem er ætlaður 400 - 450 nemendum, var hannaður af bandaríska arkitektinum Bruce A. Jilk í samvinnu við foreldra, íbúa og fyrirtæki í skólahverfinu meðal annars. Áður en Jilk kom að verkefninu hafði hann hlotið æðstu viðurkenningu bandarískra samtaka um skólahönnun. En hver var þessi Ingunn sem skólinn er kenndur við?
Ingunn Arnórsdóttir var íslensk menntakona og kennari á 12. öld og er hún fyrsta íslenska konan sem sögur fara af, sem var menntuð í latínu og öðrum fræðum til jafns við pilta og kenndi þeim líka. Ekki er vitað hvort Ingunn fékk kennslu með skólasveinum eða hvort henni tókst einfaldlega að nema það sem verið var að kenna þeim um leið og hún sinnti handavinnu sinni og öðrum verkum, en hún var á Hólum í Hjaltadal hjá Jóni biskupi Ögmundssyni.
Frá henni segir í sögu Jóns biskups: „Þar var og í fræðinæmi hreinferðug jungfrú, er Ingunn hét. Öngum þessum var hún lægri í sögðum bóklistum, kenndi hún mörgum grammaticam og fræddi hvern er nema vildi; urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en hún sjálf saumaði, tefldi, eða vann aðrar hannyrðir með heilagra manna sögum, kynnandi mönnum guðs dýrð eigi aðeins með orðum munnnáms, heldr og með verkum handanna."
Árið 2017 ákvað borgarráð Reykjavíkur að gata á svæði Vísindagarða í Vatnsmýrinni í Reykjavík yrði nefnd Ingunnargata eftir Ingunni Arnórsdóttur.
Paradísin Reynisvatn
Reynisvatn... Alltaf þegar ég hugsa um Reynisvatn fara um mig hlýir straumar. Ég man ekki hversu oft ég fór þangað að veiða fisk. Þ.e. eftir að mér tókst loksins að finna veiðistöngina mína undir öllu draslinu sem var ekki eftir mig. Það var svo gott að komast í burtu frá öllu og renna í Regnbogasilung hér í Grafarholtinu, bæði fyrir og eftir uppbyggingu. Var ekki veiðikortið upp á fimm fiska? Mig minnir það. Svo keypti maður fullt af misjafnlega góðum spúnum og kastaði svo út. Stundum beit á og skilaði sér til landsins. Stundum beit á en fiskurinn náði að losa sig. Stundum gerðist ekki neitt. Hvað sem gerðist var alltaf gaman að koma í holtið og renna fyrir fisk. En það ævintýri er nú löngu búið.
Mikið vildi ég að ég gæti farið upp að Reynisvatni með stöngina og rennt fyrir fiski. Farið með fjölskylduna og eytt þar saman tveimur, þremur tímum í senn með stangirnar okkar. Það er því miður ekki hægt lengur. Ekki veit ég skýringuna á því en ég efast ekki um að margir myndu ennþá vilja að hafa það sem möguleika að geta náð sér þar í fisk, eytt þar deginum með sjálfum sér og/eða fjölskyldunni.
Garðar Örn skrifar